Innlent

Íhugar að sækjast eftir fyrsta sæti

Óskar Bergsson.
Óskar Bergsson.

Óskar Bergsson, fyrrverandi varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, íhugar að gefa kost á sér í efsta sæti á lista framsóknarmanna fyrir næstu borgarstjórnarkosningar, en prófkjör flokksins fer fram snemma á næsta ári. Í samtali við NFS sagði Óskar að fjölmargir hefðu komið að máli sig og hvatt hann til að gefa kost á sér, en Óskar starfaði innan Reykjavíkurlistans á árunum 1994-2002.

Óskar segir að í ljósi þess að Alfreð Þorsteinsson hafi ákveðið að gefa ekki aftur kost á sér til forystu fyrir Framsóknarflokkinn í borginni sé eðlilegt að það komi fram nýtt fólk. Óskar segist hafa unnið að höfuðborgarstefnu Framsóknarflokksins fyrir nokkrum árum sem flokkurin hafi fyrstur lagt fram og hann hafi áhuga á að fylgja þeirri stefnu eftir hvort sem það sé í framvarða- eða bakvarðasveit flokksins, en um það hafi hann ekki tekið ákvörðun. Hann sé á leið í próf og muni líklega ekki taka ákvörðun um framboð fyrr en að þeim loknum, eða um miðjan desember.

Fyrr í dag greindi Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, frá því að hann hygðist bjóða sig fram í fyrsta sæti flokksins í borginni og áður hafði Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi gert hið sama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×