Innlent

Stjórnarflokkarnir ósammála um Íbúðalánasjóð

MYND/GVA
Jóhanna Sigurðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir ólgu innan stjórnarflokkanna um Íbúðalánasjóð tifandi tímasprengju. Greinilegt sé að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilji loka Íbúðalánasjóði strax á morgun, en flestir framsóknarmenn vilji að hann starfi áfram. Óljóst sé þó með formann flokksins og forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir segir líklegt að framsóknarmenn með félagsmálaráðherra í broddi fylkingar verði beygðir. Lítið hafi skýrst á fundi félagsmálanefndar í gær nema fram hafi komið mikill pirringur milli stjórnarflokkanna. Skiptar skoðanir séu um lagagrundvöll lánasamninga sem sjóðurinn hafi gert við bankanna milli Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins. Lánasýsla ríkisins, sem er undirstofnun Fjármálaráðuneytsins, telji þá ólöglega og að um sé að ræða óásættanlega meðferð á ríkisfé. Engin niðurstaða liggi fyrir frá nefnd um framtíðarhlutverk sjóðsins. Eitt sé þó víst að þetta verði eitt heitasta málið milli stjórnarflokkanna á þessu þingi. Málið sé komið í hnút og það sé einungis biðleikur að fara fram á það við Ríkisendurskoðun að hún kanni fjárhagsstöðu sjóðsins. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra vildi ekki viðtal vegna málsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×