Frá Reykjanesvirkjun streymir 35 stiga hlýr sjór, sem norskir eigendur Stolt Seafarm sjá tækifæri til að nýta á arðbæran hátt. Við hliðina á orkuverinu hafa þeir reist stóra fiskeldisstöð. Framkvæmdir hófust vorið 2012 og fyrstu seiðin fóru í kerin fyrir ári.

Fyrstu seiðin eru nú vaxin upp í heppilega stærð, 400 grömm, og segir Halldór að slátrun hefjist í janúar. Þetta verði því fyrsta salan og fyrstu tekjurnar og því mikil tímamót.
Senegal-flúran þykir bragðgóð og selst einkum í dýrari veitingahús Evrópu. Fyrir hvert kíló fást hátt í tvö þúsund krónur. „Þetta er þrisvar til fjórum sinnum dýrari en hefðbundinn fiskur, að minnsta kosti,“ segir Halldór.
Nánar verður fjallað um fiskeldisstöðina í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 annaðkvöld, þriðjudagskvöld, sem og önnur dæmi um nýsköpun vegna jarðhitanýtingar á Suðurnesjum.
