Skoðun

Jibbí í síðasta sæti í Júróvision

Ellen Calmon og Halldór Sævar Guðbergsson skrifar

Við viljum gjarnan gera okkur gildandi á meðal stærri þjóða meðal annars með þátttöku í Júróvision. Júróvisión hefur mikið skemmtanagildi, sameinar fjölskyldur og vini yfir sjónvarpinu og hvetur okkur til að grilla snemma að vori. En því miður þá höfum við oftar en ekki vermt síðustu sætin, við reynum þó og tökum þátt.



Við ættum líka að vilja gera okkur gildandi á meðal stærri þjóða í stórum málum eins og mannréttindamálum. Mannréttindi veita okkur alls konar rétt svo sem til framfærslu, sjálfstæðs lífs, náms, starfa, heilbrigðisþjónustu, háralitunar og margs annars sem skiptir okkur öll máli í daglegu lífi. Við hjá ÖBÍ efumst stundum um áhuga stjórnvalda á að gera sig gildandi í mannréttindamálum.



Nýlega áttum við fund með ráðherra mannréttindamála, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þar sem við bentum á að Ísland er eitt af síðustu löndum til að innleiða mannréttindasamning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd 30. mars 2007, síðan þá hafa stjórnvöld nokkrum sinnum áætlað að leggja fram frumvarp á Alþingi um fullgildingu samningsins en af því hefur ekki orðið. Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefni fatlaðs fólks til ársins 2014, sem Alþingi samþykkti 11. júní 2012, kemur fram að frumvarp eigi að fara fyrir Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2013. Það gekk ekki eftir og var því næsta áætlun á vorþingi 2014, sem hefur heldur ekki orðið. Nú hafa stjórnvöld sagt að frumvarpið verði lagt fram á vorþingi 2015.



158 lönd hafa þegar skrifað undir samninginn og þar af hafa 150 innleitt hann. Núverandi staða er sú að Ísland er eitt af átta síðustu löndunum. Það er vissulega von okkar að stjórnvöld taki við sér og keppist við að stýra landinu með slagorðinu „með mannréttindalögum skal land byggja“.



Staðreyndin er hins vegar sú að við vermum sæti neðarlega á listanum. Er markmiðið að verða síðust til innleiðingar á mannréttindasáttmála? Ef svo er, þá verður hæglega hægt að hrópa: „Jibbí við urðum í síðasta sæti!“ og er þá ekki um að ræða glamúrkeppni Júróvision heldur MANNRÉTTINDI!




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×