Sturla er framkvæmdastjóri markaðssviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands en árið 2012 viðurkenndi hann í yfirheyrslu hjá embætti sérstaks saksóknara að hafa brotið trúnað með því að hringja í eiginkonu sína Helgu Jónsdóttur, sem var á þeim tíma lögfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, í miðju bankahruninu árið 2008 og sagt henni frá því að mögulega yrði einum af bönkunum þremur bjargað og að Sigurjón Þ. Árnason, þáverandi bankastjóri Landsbankans, væri búinn að gefast upp.
Bent hefur verið á að Helga tilheyrir Engeyjarættinni en Guðrún Sveinsdóttir, móðir hennar, er systir Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna Benediktssonar.
Sjá einnig:Reyndir ritstjórar rífast vegna Engeyjartengingar
„Þetta er bara ógeðslegt, ég get ekki annað sagt, sagði Bjarni Benediktsson um þessa umræðu í Reykjavík síðdegis.

Hann spurði hvort menn haldi að slitastjórnir föllnu bankanna hafi ekki skoðað hvort eitthvað misjafnt hafi átt sér stað fyrir og eftir hrun til að gæta hagsmuna kröfuhafanna.
Bjarni var augljóslega ósáttur við þessa umræðu og sagði einnig að ekkert nýtt hefði komið fram í Kastljósþættinum í gærkvöldi, sem einnig var fjallað um í kvöldfréttum Stöðvar 2, og nefndi þar símtal Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, við Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, um neyðarlán til Kaupþings.

Hann sagði að ef menn skoðuðuð hvað þarna væri verið að segja og hvaðan það kemur þá sé augljóst að skjalið sem var vitnað í eigi uppruna sinn hjá sérstökum saksóknara.
„En mér fannst gefið í skyn í þessum þætti, og ég heyri það og sé að það eru kunnugleg andlit vinstri manna sem spretta fram eftir þennan þátt menn eins og Björn Valur Gíslason, einn aðalmaðurinn í Landsdómsákærumálinu sem er ein mesta skömm okkar Íslendinga á eftirhrunsárunum, og segja nú þarf að rannsaka og skoða og eflaust þarf að saksækja og ákæra. Þetta vekur allt með manni óhug og óbragð. Það er ekkert í þessu máli sem hefur ekki verið skoðað í bak og fyrir. Hafi einhvers staðar verið ástæða til að taka málin á næsta stig þá hefur það verið gert og engin ástæða til að velta fyrir sér á nokkurn hátt að þessi átta ára gömlu mál séu enn óskoðuð,“ sagði Bjarni.