Erlent

Kosningastjóri Trump samþykkti leyniaðgerðir fyrir úkraínskan forseta

Kjartan Kjartansson skrifar
Herferðin sem Manafort samþykkti þykir minna um margt á þá sem Rússar stóðu síðar fyrir í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna árið 2016.
Herferðin sem Manafort samþykkti þykir minna um margt á þá sem Rússar stóðu síðar fyrir í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna árið 2016. Vísir/AFP
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trump Bandaríkjaforseta, lagði blessun sína yfir leynilega fjölmiðlaherferð til að koma höggi á pólitíska andstæðinga þáverandi forseta Úkraínu. Aðgerðirnar beindust meðal annars að Hillary Clinton, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Breska blaðið The Guardian hefur tölvupósta og önnur skjöl undir höndum sem sýna hvernig Manafort samþykkti aðgerðirnar sem stóðu yfir frá 2011 til 2013. Manafort vann sem málafylgjumaður fyrir Viktor Janúkóvitsj, þáverandi forseta Úkraínu.

Aðgerðunum virðist hafa verið ætlað að hafa áhrif á álit heimsbyggðarinnar á ríkisstjórn Janúkóvitsj. Hún lá þá undir harðri gagnrýni eftir að Júlía Tímósjenkó, sem beið lægri hlut fyrir Janúkóvitsj í forsetakosningum árið 2010, var fangelsuð árið 2011.

Ríkisstjórn Baracks Obama, þáverandi Bandaríkjaforseta, sakaði stjórn Janúkóvitsj meðal annars um að hafa hneppt Tímósjenkó í fangelsi af pólitískum ástæðum.

Fréttirnar af leyniaðgerðunum sem Manafort samþykkti vekja ekki síst athygli því þær þykja minna á þær aðferðir sem rússnesk stjórnvöld notuðu síðar á samfélagsmiðlum til þess að hafa áhrif á kjósendur fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016.

Taldi samfélagsmiðla heppilega til að koma óorði á fólk

Aðgerðirnar sem Manafort samþykkti voru af ýmsum toga. Alan Friedman, fyrrverandi blaðamaður á Wall Street Journal og Financial Times, lagði þær til í sex blaðsíðna skjali undir yfirskriftinni „Úkraína – stafrænn vegvísir“.

Þar á meðal var tillaga um að endurskrifa Wikipedia-færslu um Tímósjenkó til að koma óorði á hana, koma á fót gervihugveitu í Vínarborg sem átti að dreifa sjónarmiðum sem styddu Janúkóvitsj og samfélagsmiðlaherferð sem átti að beinast að tilteknum hópum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Þá fengu blaðamenn Breitbart, hægrisinnaðrar vefsíðu í Bandaríkjunum, uppýsingar til að ráðast á Clinton en hún var utanríkisráðherra á þeim tíma. Í skjölunum sem The Guardian er með eru vísbendingar um að það hafi verið hugmynd Friedman að Clinton var sökuð um að magna upp „nýnasista-Frankenstein“ vegna stuðnings hennar við Tímósjenkó í grein Breitbart árið 2012.

Janúkóvitsj hrökklaðist frá völdum í febrúar 2014 eftir hörð mótmæli. Hann var talinn handgenginn stjórnvöldum í Kreml og flúði til Rússlands með aðstoð þarlendra stjórnvalda.Vísir/AFP
Friedman þessi er áður sagður hafa verið sakaður um að fela launuð störf sem málafylgjumaður.

Hann vildi meðal annars birta nafnlaus myndbönd með áróðri gegn Tímósjenkó þar sem henni væri líkt við Borís Jeltsín, drykkfelldan fyrrverandi forseta Rússlands.

„Samfélagsmiðlarýmið býður upp á mikil tækifæri til sektar í gegnum tengingu,“ skrifaði Friedman sem segir The Guardian að hann hafi aðeins unnið að almannatengslum og hafi ekki verið málafylgjumaður Úkraínustjórnar.

Tengsl við rússnesku leyniþjónustuna

Auk þeirra Manafort og Friedman tóku Rick Gates, viðskiptafélagi Manafort sem varð síðar aðstoðarkosningastjóri Trump, og Konstantín Kilimnik, samstarfsmaður Manafort, þátt í samskiptum um áróðursherferðina. Þeir voru svo aftur í sambandi við úkraínska embættismenn.

Bæði Manafort og Gates eru ákærðir í rannsókn Roberts Mueller, sérstaks rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, á tilraunum Rússa til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016 og mögulegu samráði framboðs Trump við þá.

Kilimnik er talinn hafa tengsl við rússnesku leyniþjónustuna. Gates eru sagður hafa vitað af þeim tengslum þegar þeir unnu saman í ákæru Mueller.

Júlía Tímósjenkó var forsætisráðherra Úkraínu í tvígang. Hún var fangelsuð eftir að hún tapaði í forsetakosningum fyrir Janúkóvitsj.Vísir/AFP

Birtu fjölda greina frá gervihugveitu

Gervihugveitan Rannsóknarmiðstöð fyrrum Sovétlýðvelda sem Manafort og félagar komu á fót er sögð hafa dælt út skoðanagreinum, viðtölum og greinum sem lofuðu ríkisstjórn Janúkóvitsj. Sumar þessara greina birtust meðal annars í Wall Street Journal. Sumar þeirra voru jafnframt gagnrýnar á Tímósjenkó og bandaríska utanríkisráðuneytið.

Í ákæru Mueller kom meðal annars fram að Manafort hefði greitt evrópskum fyrrverandi stjórnmálamönnum tvær milljónir dollara í gegnum aflandsfélög til að tala máli Janúkóvitsj. 

Manafort hélt áfram að starfa fyrir Janúkóvitsj allt þangað til hann hóf störf fyrir framboð Trump. Hann lét af störfum eftir að ásakanir komu fram um að hann hefði þegið milljónir frá Janúkóvitsj sem þá hafði flúið Úkraínu og leitað hælis í Rússlandi.

Mueller ákærði Manafort og Gates fyrir fjölda brota sem tengdust vinnu þeirra fyrir stjórn Janúkóvitsj, meðal annars peningaþvætti á greiðslunum sem þeir fengu frá Úkraínu og að hafa ekki skráð sig sem málafylgjumenn erlends ríkis eins og bandarísk lög krefjast.

Gates er nú sagður vinna með saksóknurum Mueller. Ólíkt Manafort hélt Gates áfram störfum fyrir framboð Trump allt til loka. Hann vann einnig fyrir undirbúningsnefnd Trump fyrir valdatökuna í janúar 2017.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×