Erlent

Svíar stór­auka fram­lög sín til varnar­mála

Atli Ísleifsson skrifar
Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar. EPA

Sænska ríkisstjórnin tilkynnti í morgun að til standi að stórauka framlög til varnarmála og að miðað verði við að tvö prósent af vergri landsframleiðslu verði lögð til málaflokksins. Þá verður fleirum gert að gegna herskyldu.

Um sama hlutfall er að ræða og NATO hefur hvatt aðildarríki sín til að leggja í varnarmál, en Svíþjóð er ekki aðili að bandalaginu. Framlög Svía til varnarmála voru 61 milljarður sænskra króna á síðasta ári. Sé miðað við tvö prósent af vergri landsframleiðslu yrðu framlögin 108 milljarðar sænskra króna.

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sagði á blaðamannafundi í morgun að um gríðarlega útgjaldaaukningu væri að ræða sem einungis sé hægt bera saman við þá sem varð á sjötta áratug síðustu aldar.

Svíar lögðu síðast tvö prósent af vergri landsframleiðslu til varnarmála undir lok tíunda áratugarins, en ástæða aukinna útgjalda til varnarmála nú er ástandið í Úkraínu og austurhluta Evrópu.

Forsætisráðherrann Magdalena Andersson segist vona að hægt verði að auka framlögin „eins fljótt og auðið er“, en Hultqvist segir að það komi til með að taka tíma að byggja upp herinn.

Fylgja í fórspor Dana

Danska ríkisstjórnin tilkynnti í síðustu viku að hún ætli sér einnig að stórauka framlög sín til varnarmála og sömuleiðis taka upp viðræður við Bandaríkin um varnarsamstarf sem gæti að falið í sér að bandarískir hermenn gætu stigið á danska jörð. 

Þá hefur sömuleiðis verið boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu í Danmörku í júní um hvort að Danir eigi að hefja þátttöku í varnarsamstarfi Evrópusambandsins, en Danmörk er nú eina aðildarríki sambandsins sem stendur utan þess.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×