Skoðun

Haturssíður með hýsingu á Íslandi

Finnur Thorlacius Eiríksson skrifar

Nýlega bárust fréttir þess efnis að vefsíða sem gerir stofnanir Gyðinga í Massachusetts að skotmörkum er hýst hér á landi. Vefsíðan er verkefni samtaka sem berjast fyrir sniðgöngu gegn Ísraelsríki. Framtakið hefur reyndar valdið sundrung innan raða samtakanna og hefur ákveðinn hluti þeirra lýst yfir vanþóknun sinni á verkefninu.

Íslenskur hýsingaraðili síðunnar kallar sig 1984 og kveðst ganga fram í nafni tjáningarfrelsis. Í sjálfu sér er gott og blessað að standa vörð um tjáningarfrelsið, en það ber að athuga að sum tjáning gengur út fyrir mörk þess. Beinar hótanir, hatursorðræða, ærumeiðingar og meinsæri eru allt dæmi um tjáningu sem er réttilega óheimil samkvæmt lögum.

Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem íslenskt hýsingarfyrirtæki er staðið að því að hýsa Gyðingahatur og viðlíka ófögnuð. Íslenska fyrirtækið Orangewebsite hýsir til dæmis nokkrar mjög vafasamar síður og íslensk yfirvöld hafa hingað til lítið sem ekkert aðhafst í því máli.

Það er löngu orðið ljóst að yfirvöld þurfa að herða verulega tökin á þeim vefsíðum sem eru hýstar hér á landi. Nýstofnaður starfshópur um hatursorðræðu á Íslandi mun vonandi ná sáttum um aðgerðir gegn slíkum síðum og aðilunum sem hýsa þær, en því miður mun ekki verða af þeim fyrr en í fyrsta lagi næsta haust.

Höfundur er meðlimur starfsstjórnar MIFF (Með Ísrael fyrir friði) á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×