„Niðurstöður aflögunarlíkana sem gerð voru í dag benda til að kvikugangurinn undir Fagradalsfjalli liggi mjög grunnt eða í kringum einn kílómetra undir yfirborðinu. Kvikuinnflæðið er nokkuð ört, en það er nálægt tvöfaldur hraði frá því sem var í aðdraganda fyrra goss í febrúar/mars 2021,“ segir í yfirliti sem birtist á vef Veðurstofunnar undir kvöld.

„Það virðist vera að hægja á aflögun og skjálftavirkni eins og staðan er núna en á seinasta ári var það einn af forboðunum fyrir eldgosið. Innskotið nú er meðfram nyrðri hluta kvikugangsins frá í fyrra og nær frá miðju gangsins hálfa leið að Keili. Líkurnar á því að það gjósi á svæðinu í kringum Fagradalsfjall á næstu dögum eða vikum hafa því aukist og eru taldar verulegar,“ segir Veðurstofan ennfremur.
Þetta líklegasta svæði eldgoss teygir sig yfir sveitarfélagamörk Grindavíkur og Voga á Vatnsleysuströnd og þar með yfir vatnaskil á Reykjanesskaga. Það þýðir að hraun úr gossprungu, sem opnaðist þar, gæti ýmist runnið til suðurs í átt að Suðurstrandarvegi, eins og gerðist í fyrra, eða til norðurs í átt að Reykjanesbraut og Faxaflóa.

Athyglisvert er að þetta er sama svæðið og vísindamenn töldu þann 3. mars í fyrra, sextán dögum áður en gosið braust upp í Geldingadölum, líklegasta upptakasvæði eldgoss, en þekkt kennileiti á svæðinu eru bungurnar Litli-Hrútur og Litli-Keilir. Þar eru hins vegar engin mannvirki.
Sjá mátti landslagið á svæðinu þá um kvöldið í fréttum Stöðvar 2 þegar flogið var yfir það í beinni útsendingu, sem rifja má upp hér: