Allir níu dómarar hæstaréttar eru sammála um niðurstöðuna en þó af mismunandi ástæðum.
Í stuttu máli sagt byggir málið á því að sex kjósendur í Colorado höfðuðu mál og fóru fram á að Trump yrði meinað að bjóða sig fram í ríkinu. Var það á þeim grundvelli að hann hefði í raun framið uppreisn gegn Bandaríkjunum með árásinni á þinghúsið í janúar 2021, þar sem stuðningsmenn hans ruddu sér leið inn í þinghúsið til að koma í veg fyrir formlega staðfestingu á úrslitum kosninganna.
Málið fór fyrir hæstarétt Colorado sem komst að þeirri niðurstöðu að Trump væri sekur um uppreisn og væri því ekki kjörgengur. Trump áfrýjaði til hæstaréttar Bandaríkjanna sem hefur nú meinað ríkjum að koma í veg fyrir framboð Trumps.
Meirihluti dómara hæstaréttar segja ráðamenn tiltekinna ríkja í Bandaríkjunum geta meinað fólki að bjóða sig fram til embætta í þeim ríkjum. Þeir geti þó ekki meinað fólki að bjóða sig fram til embætta hjá alríkinu.
Dómararnir sex, sem skipaðir voru í embætti af forseta frá Repúblikanaflokknum, þar af þrír sem skipaðir voru af Trump sjálfum, segja að þing Bandaríkjanna þurfi að semja lög um hvern einstakling sem meina eigi aðgengi að embætti vegna meintrar uppreisnar.
Hinir þrír dómararnir segjast sammála að ríki geti ekki meinað aðilum að bjóða sig fram til forseta. Þeir segja hina dómarana þó hafa gengið of langt í úrskurði sínum með því að segja að þingið geti eitt ráðið för.
Þetta var í fyrsta sinn sem hæstiréttur úrskurðar um þetta tiltekna ákvæði stjórnarskrárinnar.
Áhugasamir geta séð úrskurð hæstaréttar hér.
AP fréttaveitan segir að úrskurður meirihlutans opni á möguleikann á því að vinni Trump forsetakosningarnar í nóvember en Demókratar nái meirihluta í fulltrúadeildinni gætu þingmenn reynt að hafna niðurstöðunni með því að skilgreina viðkomandi á grunni ákvæðisins.