Erlent

Finnur fyrir eftir­sjá vegna fundarins með Trump

Jón Þór Stefánsson skrifar
Vólódímír Selenskí og Donald Trump funduðu síðastliðinn föstudag.
Vólódímír Selenskí og Donald Trump funduðu síðastliðinn föstudag. Epa

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir Úkraínumenn tilbúna að koma að samningaborðinu með Rússum og Bandaríkjamönnum og það í hvelli. Hann segist jafnframt tilbúinn að skrifa undir samning sem myndi veita Bandaríkjunum aðgang að jarðefnum í Úkraínu.

„Ekkert okkar vill endalaust stríð. Úkraína er tilbúin að koma að samningaborðinu eins fljótt og mögulegt er til að færa okkur nær friðartímum. Enginn óskar þess heitar að fá frið en Úkraínumenn. Mitt teymi og ég sjálfur erum reiðubúnir að vinna undir sterkri leiðsögn Trump forseta að friði sem endist,“ segir í færslu Selenskí á samfélagsmiðlinum X.

Þar leggur hann grunn að því hvernig hægt væri að byrja þessar samningaviðræður.

„Við erum tilbúin að vinna hratt að því að enda stíðið. Fyrsta skrefið ætti að vera að fangar verði leystir úr haldi og vopnahlé gert í lofthernað, sem myndi fela í sér bann á eldflaugum, drónaárásum, sprengjum sem beinast að orkumannvirkjum og húsnæði ætluðu almenningi. Og strax í kjölfarið ætti að ganga í garð vopnahlé í sjóhernaði. Rússar þurfa að vera tilbúnir að ganga að þessum skilyrðum. Þar á eftir getum við fljótlega farið að vinna að næstu stigum með Bandaríkjynum að sterkum efnahagssamnignum.“

Selenskí þakkar Bandaríkjamönnum fyrir þá hjálp sem þeir hafa veitt í stríðsátökunum, og segir miður hvernig fundur hans og Donalds Trump Bandaríkjaforseta fór á dögunum.

„Við metum það virkilega hversu mikið Ameríka hefur hjálpað Úkraínu að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði.“

Fundur okkar í Washington, í Hvíta húsinu á föstudag, fór ekki eins og hann hefði átt að gera. Ég finn fyrir eftirsjá vegna þess hvernig hann fór. Það er kominn tími á að breyta rétt. Við viljum að framtíðarsamstarf okkar og samskipti verði uppbyggileg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×