Innlent

Þýskur her­foringi í heim­sókn á Ís­landi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Carsten Breuer ræddi við íslenska fjölmiðla í utanríkisráðuneytinu í morgun í tilefni heimsóknarinnar.
Carsten Breuer ræddi við íslenska fjölmiðla í utanríkisráðuneytinu í morgun í tilefni heimsóknarinnar. Vísir/Bjarni

Yfirmaður þýska hersins er staddur á Íslandi en tilgangur heimsóknarinnar er að efla tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Þýskalands. Hann segir rússneska ógn steðja að Evrópu og sjaldan hafi verið mikilvægara að styrkja samstarf bandalagsríkja á sviði varnarmála.

Carsten Breuer, æðsti yfirmaður þýska heraflans, kom hingað til lands í gær ásamt sendinefnd í þeim tilgangi að styrkja samstarf ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála, einkum á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi. Hann segir öryggisumhverfið í Evrópu gjörbreytt í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

„Það sem við erum að sjá er hættulegt, þetta er ógn sem Rússar beina að Evrópu, nokkuð sem ég hef ekki séð á mínum fjörutíu árum sem hermaður,“ segir Breuer í samtali við fréttastofu.

Æðsti yfirmaður þýska heraflans kom hingað til lands í gær ásamt sendinefnd.Vísir/Bjarni

Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisnis, segir heimsóknina mikilvægan þátt í að efla samband við bandalagsríki innan Atlantshafsbandalagsins.

„Þjóðverjar eru að horfa í að styrkja sína getu, meðal annars getu sem snýr að kafbátaleit og Ísland gegnir auðvitað mikilvægu hlutverki fyrir Atlantshafsbandalagið hér á Norður-Atlantshafi í því samhengi. Bandaríkin eru hryggjarstykkið í þessu eftirliti og við erum hér með norskar eftirlitsvélar og kandískar sem koma hingað, Bretar líka, og Þjóðverjar sjá fram til þess að bætast í þann hóp. Það er mjög mikilvægt líka fyrir okkur sem bandalagsríki að kynna öllum bandalagríkjum, og þá ekki síst stóru samstarfsríkjunum, hvað við leggjum af mörkum til öryggis Evrópu og Norður-Ameríku,“ segir Jónas.

Jónas G. Allansson er skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.Vísir/Bjarni

Nánar verður rætt við þá Jónas og Carsten Breuer í kvöldfréttum Sýnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×