Innlent

Vill lækka matarskatt

Samfylkingin lagði í gær til að matarskattur yrði lækkaður um helming síðari hluta ársins 2005: "Þetta kemur öllum vel og sérstaklega milli- og lágtekjufólki" segir í yfirlýsingu flokksins. Þá leggur flokkurinn til að hækkun barnabætur verði flýtt og þær hækki strax um 2,5 milljarða króna. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar kynnti hugmyndir flokksins í umræðum á þingi í gær og lagði hann til að matarskattslækkunin kæmi í stað eins prósents lækkunar tekjuskatts sem á að koma til framkvæmda um áramót: "Þetta vegur hvort annað upp." Sagði hann að lækkunin væri ekki þensluhvetjandi því neysluvísitala lækkaði á móti. Össur sakaði framsóknarmenn um að standa eina gegn lækkun matarskatts. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra sagði rétt að hann hefði verið efins um tvö skattþrep en fyrst það væri á annað borð til skipti engu höfuðmáli hver prósentan væri. Geir H. Haarde sakaði Samfylkinguna um að hentistefnu og sagði flokkinn hafa stolið stefnu Sjálfstæðisflokksins um lækkun matarskattar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×