Innlent

Stuðningur við stríð endurmetinn

Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, telur eðlilegt að íslensk stjórnvöld endurskoði stuðning sinn við Íraksstríðið í ljósi þess að upplýsingar um gereyðingarvopn í Írak hafi verið rangar. Hjálmar lét þessa skoðun sína í ljós í viðtalsþætti Egils Helgasonar í gær. Þar spurði Egill hvort rétt væri að íslensk stjórnvöld myndu láta af stuðningi sínum við framgöngu Bandaríkjamanna í Írak. "Mér finnst það koma til greina, ég segi bara já við því," svaraði Hjálmar. Í samtali við Fréttablaðið sagði Hjálmar að röng upplýsingagjöf bandamanna, sem íslensk stjórnvöld hafa reitt sig á í hálfa öld, væri mjög alvarleg fyrir samskipti þjóðanna og því væri eðlilegt að fara yfir ferlið í heild sinni. "En jafnframt minni ég á skyldu okkar til að koma að uppbyggingarstarfi í landinu sem er bókstaflega í rúst," bætti Hjálmar við. Að Kristni H. Gunnarssyni undanskildum, er Hjálmar fyrsti þingmaður stjórnarflokkanna til að láta opinberlega í ljós efasemdir um stuðning við Íraksstríðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×