Innlent

Vildi hækka fjárveitinguna 1998

Halldór Ásgrímsson lagði til við ríkisstjórnina fyrir sex árum að Mannréttindaskrifstofu Íslands yrði tryggð fjárveiting beint frá Alþingi og að hún yrði hækkuð úr sex milljónum í fimmtán milljónir. Sami stjórnarmeirihluti og var þá við völd afnam í gær alla fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofunnar. Mannréttindaskrifstofa Íslands fékk átta milljónir á fjárlögum þessa árs. Fjórar milljónir eru bókfærðar frá utanríkisráðuneytinu og fjórar frá dómsmálaráðuneytinu. Í fjárlögum næsta árs voru milljónirnar frá dómsmálaráðuneytinu teknar í burtu en áfram var gert ráð fyrir fjórum milljónum frá utanríkisráðuneytinu, allt fram á síðasta dag sem fjárlaganefnd var með frumvarpið til meðferðar. Þann dag var framlag utanríkisráðuneytisins til mannréttindaskrifstofunnar fjarlægt og fær hún ekkert á fjárlögum næsta árs. Halldór Ásgrímsson forsætisræðaherra ritaði minnisblað til ríkisstjórnarinnar á vordögum 1998. Þar gat eftirfarandi skoðun Halldórs að líta: „Þetta fyrirkomulag, þ.e. opinbert framlag frá dómsmálaráðuneytinu, er ekki í samræmi við það sem tíðkast víðast annars staðar. Mikilvægt er að undirstrika sjálfstæði skrifstofunnar og styrkja starfsemi hennar.“ Síðar í minnisblaðinu segir: „Ennfremur er lagt til nýtt fyrirkomulag varðandi opinberan fjárstuðning við rekstur Mannréttindaskrifstofu Íslands, þ.e. að hann greiðist ekki lengur af dómsmálaráðuneyti. heldur þiggi skrifstofan fjárveitingu beint frá Alþingi í stað handhafa framkvæmdavaldsins, þ.e. samtals kr. 15.000.000.“ Fréttastofa leitaði skýringa Halldórs á muninum á afstöðu hans fyrir sex árum og niðurstöðu fjárlaga nú í dag, en án árangurs. Hann sagði hins vegar á þingi í fyrradag að ekki lægi fyrir ákvörðun um að skerða framlög til þessa málaflokks. Á heimasíðu mannréttindaskrifstofunnar má sjá að hún hefur á þessu ári gagnrýnt harðlega tvö frumvörp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra; annað um málefni útlendinga og hitt um meðferð opinberra mála. Þá gagnrýndi mannréttindaskrifstofan einnig fjölmiðlafrumvarp forsætisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×