Innlent

Enginn var boðaður í viðtal

Forsætisráðuneytið boðaði engan umsækjanda um stöðu umboðsmanns barna í viðtal heldur réði Ingibjörgu Rafnar hæstaréttarlögmann einungis þremur dögum eftir að umsóknarfresturinn rann út. Nokkrir umsækjendanna hyggjast óska eftir rökstuðningi ráðuneytisins. Umsóknarfrestur um starf umboðsmanns barna rann út 29. nóvember. Að sögn Steingríms Ólafssonar, upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, bárust hins vegar flestar umsóknirnar talsvert fyrr þannig að starfsfólki ráðuneytisins gafst tóm til að fara vandlega yfir þær. Á grundvelli þeirrar vinnu skipaði forsætisráðherra í stöðuna og því var ekki talið nauðsynlegt að boða fólk í viðtöl. Meðal umsækjenda sem ætla að óska eftir rökstuðningi ráðuneytisins eru Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu og Jón Björnsson, frkvstj. fjölskyldu- og þróunarsviðs Reykjavíkur. Jón skilaði umsókn sinni fáeinum klukkustundum áður en umsóknarfresturinn rann út og var hún 25 blaðsíður að lengd. "Mér finnst þetta dálítið sérkennilegt að það þurfi ekki að tala við neinn, það er að minnsta kosti ekki mjög traustvekjandi aðferð," sagði hann í gær. Blaðið hefur heimildir fyrir því að fleiri umsækjendur hafi skilað sinni umsókn örstuttu fyrir skilafrestinn. Ingibjörg tekur við starfi sínu þann 1. janúar næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×