Innlent

Mistök í lagasetningu

Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, segir að ekki sé enn vitað hvað dómur Hæstaréttar um erfðafjárskatt frá því á föstudag hafi áhrif á marga. Þá komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að sex erfingjar þyrftu ekki að greiða erfðafjárskatt vegna þess að engin heimild hefði verið fyrir skattlagningu. Með samþykkt á nýjum lögum þann 1. apríl um erfðafjárskatt voru eldri lög felld úr gildi. Með breytingunni var því ekki heimild fyrir skattálagningu á bú þeirra sem létust fyrir þann tíma og ekki hafði verið gefið út leyfi fyrir setu í óskiptu búi. Einnig skiptir máli hvenær erfðafjárskýrsla var lögð fram, því ný lög sem kváðu skýrar á um gildistökuna voru samþykkt þann 20. apríl. Ragnar Hall, sem sótti málið fyrir hönd erfingjanna, segir þetta hafa verið mistök í lagasetningu, því varla geti það hafa verið ætlunin að fella niður skatt. Baldur tekur undir það og segir að þetta sé ekki nokkuð sem menn geri vísvitandi. "Það er óheppilegt að þetta gerist. Það er eins og gengur, stundum kemur í ljós að það hafa átt sér stað mistök í lagasetningu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×