Innlent

Baráttan gegn fátækt í fyrirrúmi

Eitt af meginverkefnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) snýr að því að útrýma fátækt og hungri í heiminum. Við upphaf fundar framkvæmdastjórnar stofnunarinnar í Reykjavík voru kynnt svonefnd þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna, en WHO er ein stofnana Sameinuðu þjóðanna og vinnur að þeim markmiðum til að stuðla að bættu heilsufari fólks. Auk baráttu gegn fátækt og hungri ætlar stofnunin að beita sér fyrir auknu jafnrétti kynjanna, bættri menntun, minni barnadauða, auknum sjúkdómavörnum, vinna að umhverfismálum svo sem aðgengi að hreinu drykkjarvatni og fleiri hlutum. Lee Jong-wook, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, og Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri, sem jafnframt er formaður framkvæmdastjórnar WHO gerðu grein fyrir viðfangsefni fundarins í gærmorgun. "Það er næstum jafn vel mætt á þennan fund og á venjulega stjórnarfundi í Genf," sagði Davíð og bætti við að á fundinum yrði rætt hvernig stofnunin fengi brugðist við aðsteðjandi heilbrigðisvanda auk þess að mæta árþúsundamarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Lee Jong-wook greindi frá því að Ísland hefði orðið fyrir valinu sem fundarstaður, ekki síst fyrir viðleitni stjórnvalda, en bætti við að einnig hefði honum þótt forvitnilegt að heimsækja land sem fyrir ekki nema rúmri hálfri öld hafi verið nálægt því vanþróað, en stæði nú með fremstu löndum. "Meðlimir stjórnar stofnunarinnar kunna að geta lært eitthvað af reynslu ykkar," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×