Innlent

Norðurlandasamstarf á krossgötum

Steingrímur J. Sigfússon: "Ég hef á tilfinningunni að stjórnmálamennirnir á Norðurlöndunum séu einhvern veginn að missa áhugann."
Steingrímur J. Sigfússon: "Ég hef á tilfinningunni að stjórnmálamennirnir á Norðurlöndunum séu einhvern veginn að missa áhugann."

Sigríður Anna Þórðardóttir, samstarfsráðherra Norður­landa, segir alrangt að tillögur um breytingar á starfsemi Norður­landaráðs miði að því að draga úr starfsemi þess.

"Þvert á móti miða breytingarnar að því að gera samstarfið áhrifaríkara og skilvirkara," segir Sigríður Anna.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi tillögur um skipulagsbreytingar á Norðurlandaráði þegar hann ávarpaði þingið á þriðjudag. "Það geta verið rök fyrir því að endurskipuleggja starfið að einhverju leyti. En ég held satt best að segja að sé ekki mikill stuðningur við að skera niður ráðherrasamstarf á sviði neytendamála svo dæmi sé tekið. Svipað er að segja um ráðherranefnd og samgöngur. Það er skrítið að á sama tíma og rignir yfir okkur erindum um nýja samgöngumáta á Norðurlöndum er ætlunin að leggja niður ráðherrasamstarf á sviði samgöngumála."

Steingrímur segir að tilhneigingin sé alltaf í þá átt að skera niður og fækka, leggja niður, taka málaflokka af norrænu fjárlögunum og flytja þá til einstakra landa.

Sigríður Anna telur að róttækustu tillögurnar snúi að fækkun í ráðum og nefndum. "Ráðherranefndunum, embættismannanefndum og ýmsum vinnuhópum, sem hafa verið mjög margir, verður fækkað. Þetta var orðið þungt og flókið. Og það er ekki verið að leggja niður samstarf eða vinnu á mikilvægum sviðum eins og neytendamálum. Neytendamálaráðherrarnir setja samvinnu sína í annan farveg og fá fjármuni til þess með öðrum hætti en áður," segir Sigríður Anna.

"Ég hef á tilfinningunni að stjórnmálamennirnir á Norðurlöndunum séu einhvern veginn að missa áhugann. Það gildir hins vegar ekki um íbúana sem sýna samstarfinu mikinn áhuga," segir Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×