Innlent

Ósammála um breytingar í Óshlíð

Meirihluti bæjarstjórnar Bolungarvíkur hefur lýst yfir mikilli ánægju með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja rannsóknarvinnu vegna jarðganga um Óshlíðarveg. Hefur meirihlutinn meðal annars átt í samstarfi við Vegagerðina um öryggismál á veginum. "Þar er stillt upp nokkrum valkostum, þar á meðal jarðgangavalkostum sem við hefðum viljað fara," segir Elías Jónatansson, formaður bæjarstjórnar í Bolungarvík. Hann segir meirihluta bæjarstjórnar hafa viljað fylgja leiðbeiningum Vegagerðarinnar um að fara með jarðgöng í gegnum Óshyrnu. Minnihluti bæjarstjórnar Bolungarvíkur gagnrýnir hins vegar harðlega vinnubrögð meirihlutans í málinu og er ósammála því að best sé að gera göng um Óshlíð. "Við erum mjög jákvæð fyrir jarðgangagerð en ekki um Óshlíð," segir Soffía Magnúsdóttir, fulltrúi minnihlutans í bæjarstjórn. "Við teljum að það hafi komið fram svo háværar raddir um að skoða aðra möguleika, að fara fram Syðridal og inn í Vestfjarðagöngin Tungudalsmegin. Við höldum að þetta sé ekki rétt leið en við getum ekki metið það heldur viljum við fá fagaðila til að skoða þetta úr því að þau gleðitíðindi bárust frá ríkisstjórn að hún liti nú vestur og vildi setja þetta fjármagn." Hún telur enn margar snjóflóðahættur ef farin verður sú leið sem Vegagerðin leggur til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×