Innlent

Segir eftirlaunafrumvarpið dýrara

Umdeilt eftirlaunafrumvarp alþingis sem samþykkt var naumlega á þingi fyrir tveimur árum jók lífeyrrisskuldbindingu ríkisins um 650 milljónir á árinu 2004. Þetta segir Helgi Hjörvar alþingismaður á heimasíðu sinni í dag. Hann segir kostnaðinn orðinn miklu mun hærri en gert hafi verið ráð fyrir. Helgi Hjörvar fer hörðum orðum um eftrilaunafrumvarpið umdeilda og afleiðingar þess, sem eins og menn eflaust muna var samþykkt þrátt fyrir hávær mótmæli launaþegahreyfinga og þingmanna um þar síðustu jól. Helgi segir að upphaflega hafi ekki fylgt frumvarpinu kostnaðarmat en eftir eftirgangssemi þings og fjölmiðla hafi formaður Allsherjarnefndar látið framkvæma slíkt mat. Það hafi gert ráð fyrir að í versta falli myndi frumvarpið hafa í för með sér rúmlega 400 milljóna króna kostnaðaaukningu, í besta falli yrði hún þó ekki nema um 7 milljónir. Helgi Hjörvar segir í pistli sínum að hækkunin sem nú hafi komið fram sé þegar orðinn 650 milljónir króna samkvæmt áætlun. Þannig hafi kostnaður vegna lífeyrisskuldbindinga alþingismanna árið 2004 hækkað um 323 milljónir króna, en spár Talnakönnunar fyrir Alþingi hafi gert ráð fyrir að hækkun gæti mest orðið 172 milljónir. Helgi segir að hækkun lífeyrisskuldbindinga ráðherra árið 2004 hafi verið 83 milljónir, en mat Talnakönnunar hafi gert ráð fyrir að hækkunin yrði aldrei minni en 66 milljónir króna. Hið sama á við ef lífeyrisskuldbindingar embættismanna en þær hækkuðu eftir því sem Helgi segir um 242 milljónir króna á síðasta ári en áttu samkvæmt verstu spám Talnakönnunar einungis að hækka um 57milljónir. Samanlagt jukust því lífeyrisskuldbindingar vegna ráðherra, alþingismanna og embætismanna um 650 milljónir á síðasta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×