Innlent

Ágreiningur um kjör í stjórn

Framsóknarmenn í Reykjavík ætla að efna til opins prófkjörs vegna borgarstjórnarkosninganna í vor. Stuðningyfirlýsing við Framsóknarflokkinn dugir til að vera gjaldgengur í prófkjörinu. Fundur í kjördæmaráði Reykjavíkurkjördæmis-suður leystist upp í gær vegna ágreinings um kjör í stjórn.

Allir þeir sem sátu fund Framsóknarmanna í Reykjavík í gærkvöldi samþykktu að haldið skyldi prófkjör þann 28. janúar með því sniði að allir flokksbundnir framsóknarmenn gætu kosið, auk allra þeirra sem væru reiðurbúnir að lýsa skriflega yfir stuðningi við flokkinn. Framboðsfrestur til að taka þátt í prófkjörinu rennur út 29. desember. Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi framsóknar hefur gefið um það skýr svör að hún hyggist stefna á fyrsta sætið í prófkjörinu. Alfreð Þorsteinsson, núverandi oddviti framsóknar í borgarstjórn hefur einnig gefið til kynna að hann hyggist áfram sækjast eftir forystusætinu. Nafn Björns Inga Hrafnssonar hefur einnig heyrst nefnt í þessu samhengi.

Fyrir fundi kjördæmasambands í Reykjavíkurkjördæmi-suður lá fyrir tillaga stjórnar um skipan nýrrar stjórnar, tillaga sem almennt samkomulag hafði náðst um. Þá gerði ritari stjórnar tillögu um tvo aðra frambjóðendur, til viðbótar við þá sjö sem samkomulag hafði náðst um. Þá varð sumum fundargesta nóg um og yfirgáfu til að mynda ungliðar salinn í mótmælaskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×