Innlent

Kom ekkert út úr fundi ASÍ með ráðherrum

Það kom ekkert út úr fundi leiðtoga ASÍ með forsætis- og utanríkisráðherra í dag: Engar tillögur, engin úrræði. Fundarmenn voru þó ánægðir með „jákvæðan fund", eins og það var orðað.

Verkalýðsforystan leggur áherslu á fjögur atriði í viðræðum sínum við ríkisvaldið: Myndarlegan stuðning við örorkubætur lífeyrissjóðanna svo að ekki þurfi að skerða lífeyrisgreiðslur frekar; tekjutengingu og hækkun atvinnuleysisbóta; framlög til starfsmenntunar og fullorðinsfræðslu; og lög um starfsmannaleigur til að koma í veg fyrir slæma meðferð á erlendum verkamönnum.

Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafa ekki farið dult með að þeir telji forsendur kjarasamninga brostnar og telur meðal annars miðstjórn ASÍ einsýnt að til uppsagnar kjarasamninga komi að óbreyttu, þ.e. kveði ekki við nýjan tón hjá ríki og atvinnuveitendum í viðræðum um endurskoðun samninganna.

ASÍ vill meðal annars að stjórnvöld axli hlut í örorkubótagreiðslum lífeyrissjóðanna, að lög um atvinnuleysisbætur verði endurskoðuð og að atvinnuleysisbætur verði tekjutengdar.

Síðdegis gengu svo fulltrúar ASÍ á fund ríkisstjórnarinnar. Eftir að þeir höfðu setið að spjalli í eina og hálfa klukkustund sagði Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, að engin niðurstaða lægi fyrir. Málið hefði þó þokast nær niðurstöðu. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði fundinn hafa verið ágætan. Aðalatriðið sé þó hvort náist saman með fulltrúum atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar. Það liggur fyrir að sögn Halldórs að ríkisstjórnin er tilbúin að koma að ákveðn um málum, en þetta séu stór mál.

Ákveðnar tillögur eða úrræði virtust miðað við þessi svör ekki hafa verið til umræðu og ekki var á fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar að skilja annað en að þeir væru nokkuð sáttir við það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×