Innlent

Óhollusta í framhaldsskólum

MYND/Vilhelm

Menntamálaráðuneytið mun ekki beita sér með beinum hætti fyrir því að óhollusta verði í boði í framhaldsskólum. Fjórðungur framhaldsskóla í landinu er ekki með mötuneyti en allir framhaldskólarnir bjóða hins vegar upp á sælgæti og gos til sölu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sat fyrir svörum á Alþingi í dag um óhollt mataræði í skólum. Það var Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttur, þingmaður Samfylkingarinnar, sem kvað máls á því að mataræði í framhaldsskólum væri oft á tíðum ekki til fyrirmyndar. Samkvæmt könnun sem Ásta gerði bjóða allir framhaldsskólar upp á sælgæti og gos til sölu þrátt fyrir að mötuneyti væri ekki í fjórðungi þeirra.

Ásta sagði mikla vakningu hafa verið um mataræði barna. Mikill munur sé á því hvernig því sé háttað í leikskólum og grunnskólum frá því sem áður var. Allt annað væri hins vegar upp á teningnum í framhaldsskólum þar sem óhollusta væri oft á tíðum mikil. Vildi Ásta því vita hvað menntamálaráðuneytið hyggðist gera í stöðunni.

Þorgerður sagði að hún myndi ekki beita sér með beinum hætti fyrir því að óhollusta yrði ekki í boði í skólum. Hins vegar hvetji hún alla þá sem starfa í skólum landsins að bjóða upp á hollan og góðan mat en það yrði ekki gert í gegnum miðstýrðar ákvarðanir. Frumkvæðið og samstaðan þurfi að koma innan frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×