Enski boltinn

Daily Mirror: Inter samþykkti tilboð United í Sneijder

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sneijder ásamt eiginkonu sinni í Bandaríkjnum í júní.
Sneijder ásamt eiginkonu sinni í Bandaríkjnum í júní. Nordic Photos / AFP
Breska götublaðið Daily Mirror staðhæfir í dag að ítalska félagið Inter hafi samþykkt tilboð Manchester United í Hollendinginn Wesley Sneijder.

United mun hafa lagt fram formlegt tilboð um helgina upp á rúmar 30 milljónir punda og að Inter hafi tekið því.

Sneijder hefur samkvæmt sömu frétt fengið leyfi til að ræða við Manchester United um kaup og kjör og að þær viðræður muni eiga sér stað síðar í vikunni. Launakröfur Sneijder eru sagðar vera miklar og í raun of háar miðað við það sem gengur og gerist hjá United.

Hins vegar eru forráðamenn United sagðir reiðubúnir að koma til móts við Sneijder með því að bjóða honum ríflegar bónusgreiðslur sem myndi gera það að verkum að heildarlaun hans væru svipuð og hjá Inter. Hjá United fengi hann að meðaltali um 190 þúsund pund á viku í heildarlaun.

Hvorugt félag vildi tjá sig mikið um mál Sneijder þegar eftir því var leitað í gær. Forráðamenn Inter munu hins vegar hafa staðfest að tilboð hafi borist frá ensku félagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×