Innlent

Norski flug­herinn á leið til landsins með fjórar F-35 orrustu­þotur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Orrustuþota af gerðinni F-35.
Orrustuþota af gerðinni F-35. Vísir/Getty

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland hefst að nýju með komu norska flughersins. Flugsveitin kemur hingað til lands nú í febrúar með fjórar F-35 orrustuþotur og mun dvelja hér í nokkrar vikur, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Um 130 liðsmenn norska flughersins taka þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem í Þýskalandi (e. Combined Air Operations Center).

Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu 20. til 29. febrúar. Loftrýmisgæslan verður í samræmi við loftrýmisáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland og fyrirkomulagið verður með sama hætti og áður, að því er fram kemur í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.

Flugsveitin verður með aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar segir að gert sé ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir lok mars. Í umfjöllun norska ríkissjónvarpsins NRK frá því um helgina kemur einmitt fram að verkefnið muni standa yfir í þrjár vikur.

Þar er jafnframt greint frá því að Íslandsförin sé fyrsta verkefnið utan Noregs sem orrustuþoturnar sinna. Haft er eftir Ståle Nymoen, undirofursta við Ørland-flugstöðina, að flugsveitin verði með tvær flugvélar tilbúnar til flugtaks, óski NATO eftir því, til að fljúga til móts við flugför, e.t.v. ókunnug, sem koma inn í íslenska lofthelgi.

Landhelgisgæsla Íslands annast verkefnið í samvinnu við Isavia. Norski flugherinn sinnti síðar loftrýmisgæslu við Ísland árið 2016 en þá með F-16-orrustuþotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×