Þessa urðum við áskynja þegar við ræddum við íbúa sveitarinnar í þættinum Um land allt á Stöð 2, eins og Maríu Númadóttur, sauðfjárbónda og bókara á Molastöðum. Það að vera bóndi er ekki aðalstarf hennar þótt hún búi í sveit.

„Nei, það er nú því miður ekki aðalstarfið. Þó ég myndi óska þess að það væri hægt,“ segir María, sem segist aka hvern virkan dag til Siglufjarðar vegna bókhaldsvinnu. Það sé ekkert grín að aka daglega á milli.
„Eins og núna. Jarðsigið er alveg hryllilegt, bara frá því í morgun,“ segir hún.

María er jafnframt búin að hlaða niður börnum.
„Jú, jú. Þau eru orðin átta,“ svarar hún. „Og verða sennilega ekkert fleiri,“ bætir hún við og hlær.

„Vegurinn á milli okkar og Siglufjarðar er í rauninni ónýtur. Það er jarðsig á honum hér og þar,“ segir Arnþrúður Heimisdóttir, sem rekur hestaleigu í Langhúsum, og bætir við að veginum sé oft lokað vegna snjóflóðahættu.
Þegar Haukur B. Sigmarsson, framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi, rekstraraðila Depla-hótelsins í Fljótum, langstærsta vinnustaðar sveitarinnar, er spurður hverjar hafi verið mestu áskoranirnar í rekstrinum, er svarið:

Samgöngurnar, bara það að komast á milli staða, segir Haukur og nefnir að fyrirtækið þurfi nánast að vera sjálfbært með snjómokstur. Það þurfi að koma gestunum til og frá.

„Við eigum Íslandsmet í snjódýpt hér í Fljótunum,“ segir Jóhannes Ríkharðsson, bóndi á Brúnastöðum.
„Eina sem okkur vantar eru göng til Siglufjarðar. Ekki spurning, bora hér í gegn,“ segir Kristján Sigtryggsson, stöðvarstjóri Skeiðsfossvirkjunar.

Þátturinn um Fljót er endursýndur á Stöð 2 í dag, sunnudag, klukkan 16.05. Einnig má nálgast hann á streymisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá átta mínútna kafla úr þættinum: