Innlent

Stjórnmálaflokkar spilltastir

Íslenskir stjórnmálaflokkar eru spilltustu stofnanir íslenska samfélagsins. Þetta eru niðurstöður nýrrar alþjóðlegrar könnunar. Stjórnmálaflokkar eru taldir spilltasta aflið í sex af hverjum tíu löndum sem þátt tóku í könnuninni. Hér á landi er viðskiptalífið talið næstspilltasti geiri samfélagsins og fjölmiðlar eru í þriðja sæti.  Íslenskur almenningur telur stjórnmálaflokka vera spilltasta afl íslenska samfélagsins. Þar á eftir kemur viðskiptalífið og fjölmiðlar eru þriðji spilltasti geirinn. Þetta eru niðurstöður alþjóðlegrar könnunar sem Gallup framkvæmdi í sumar fyrir alþjóðastofnunina Transparency International sem hefur það að höfuðmarkmiði að berjast gegn spillingu. Almenningur í 62 löndum gaf stofnunum samfélagsins einkunn á bilinu 1-5 og í 36 löndum, eða tæplega 60 prósentum ríkja, telur almenningur að spilltasta afl samfélagsins séu stjórnmálaflokkar. Í fréttatilkynningu frá stofnuninni segir að stjórnmálaflokkar séu þjálfunarbúðir fyrir þjóðarleiðtoga framtíðarinnar og löggjafa framtíðarinnar. Því sé afar mikilvægt að það sé bundið í lög að fjármál stjórnmálaflokka séu gerð gagnsæ og opinber og að stjórnmálaflokkar upplýsi um öll framlög sem þeim berist. Þessu hefur verið afar ábótavant í starfi íslenskra stjórnmálaflokka um áratugaskeið. Þrjú prósent Íslendinga kannast við að hafa greitt mútur á síðustu tólf mánuðum. Það er lítið miðað við að meðaltalið er tíu prósent þjóðar, en mikið í samanburði við nágrannaríki okkar, en þar trjóna Íslendingar efstir ásamt Finnum og Norðmönnum. Rúm 40 prósent Íslendinga telur að spilling muni aukast á næstu þremur árum en einungis sjö prósent telja að það dragi úr spillingu. Flestir, eða 45 prósent, telja spillingu haldast óbreytta, en sex prósent gáfu ekkert svar við þessu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×