Skoðun

Raddstýrða stríðið

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Smásölumarkaðurinn vestanhafs var heldur betur í sviðsljósinu í síðustu viku. Hluthafar Whole Foods samþykktu formlega að selja verslanakeðjuna til Amazon á ríflega 1.500 milljarða króna og nýju eigendurnir ætla strax að lækka vöruverð. Samdægurs bárust áhugaverð tíðindi frá Google. Frá og með síðari hluta september geta notendur snjallhátalarans Google Home keypt vörur frá stærsta smásala heims, Wal-Mart, með raddskipunum.

Amazon með forystu

Flestum ber saman um að samstarf Google og Wal-Mart sé svar við auknum umsvifum Amazon. Jeff Bezos og félagar hafa lagt ríka áherslu á þróun og sölu Amazon Echo snjallhátalara að undanförnu og nífaldaðist salan á síðasta ári. Echo hefur í dag tæplega þrisvar sinnum fleiri virka notendur en Google Home.

Markmiðið er þó ekki eingöngu að selja sem flesta hátalara heldur að hagnast á notkuninni. Ljóst er að Amazon og Google telja raddstýrð innkaup spennandi markað og þó Amazon hafi hingað til verið mun meira áberandi í smásölu á vefnum er samstarfið við Wal-Mart afar stórt skref fyrir Google og markaðstorg þeirra, Google Express. Vörur Costco, Target, Walgreens, Toys R Us og fleiri risa hafa reyndar verið í boði á markaðstorginu (meira að segja Whole Foods) og frá því í febrúar hefur verið hægt að panta vörur með raddstýringu en með tilkomu Wal-Mart færist samkeppnin á annað plan.

Næsta skref í vefverslun

Það getur verið erfitt að átta sig á áhrifum aukinnar samkeppni en stundum er hægt að sjá vísbendingar í verðlagningu hlutabréfa. Þegar tilkynnt var um fyrirhuguð kaup Amazon á Whole Foods í byrjun sumars féllu hlutabréf Costco um 3% og um önnur 5% á miðvikudaginn þegar Amazon greindi frá verðlækkunum. Það er því ljóst að markaðurinn lítur svo á að taka þurfi vefverslun alvarlega.

Ekkert er þó ennþá í boði hér heima. Google heyrir vissulega íslensku og getur skrifað niður talað mál, en gervigreind Google Assistant býður ekki enn upp á samskipti á tungumálinu frekar en Alexa (gervigreind Amazon), Cortana (Microsoft) og Siri (Apple). Íslenskir neytendur munu þó væntanlega ekki láta bjóða sér það til lengdar og munu nota þær lausnir sem í boði verða, hvort sem raddstýring tækja, verslunar, tónlistar og fleira verður á íslensku eða ensku.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×