Skoðun

Keyrt í gagn­stæðar áttir við Vonar­stræti

Ólafur Stephensen skrifar

Borgarstjórn Reykjavíkur fjallar í dag um tillögu borgarstjórans um stórfellda hækkun gatnagerðargjalda í borginni. Hækkun gjaldsins fyrir fjölbýlishús verður 85%. Sennilegt er að afleiðingar þessarar skattahækkunar verði að verð fyrir íbúð í fjölbýlishúsi hækki að meðaltali um tvær milljónir króna.

Húsnæðisvandi og hátt íbúðaverð hefur verið eitt meginviðfangsefni stjórnmálanna undanfarin ár og eitt af aðalumræðuefnunum fyrir hvort heldur er sveitarstjórnar- eða Alþingiskosningar. Það vekur óneitanlega furðu ef borgarstjórn Reykjavíkur ætlar í dag að taka ákvörðun, sem mun stuðla að hækkun íbúðaverðs og frekari húsnæðisvanda.

Borgin leggur hærri kvaðir á húsbyggjendur

Í greinargerð með tillögu borgarstjóra kemur fram að gatnagerðargjöld standi í dag ekki undir kostnaði við gatnagerð og muni heldur ekki gera það eftir hækkun. Þá verði gjaldskráin bara svipuð og í öðrum sveitarfélögum. Þá gleymist að nefna að Reykjavíkurborg gengur á mörgum öðrum sviðum miklu lengra í gjaldtöku og kvöðum á húsbyggjendur en önnur sveitarfélög, til dæmis þessum:

  • Borgin leggur kvaðir á byggingarfélög um að félagsíbúðir séu 5% nýrra íbúða, en önnur sveitarfélög gera ekki sömu kröfur. Söluverð á þessum íbúðum er fyrirfram ákveðið og vel undir kostnaði, þannig að í því felast álögur á húsbyggjendur.
  • Af sama toga eru kvaðir um að hlutfall leiguíbúða sé 15%.
  • Byggingarréttargjöld eða innviðagjöld eru 17.500 krónur á fermetra í Reykjavík og eiga sér enga hliðstæðu.
  • Reykjavík gerir þá kröfu til lóðarhafa á nýjum skipulagssvæðum að ákveðinni fjárhæð sé varið í listsköpun í almenningsrýmum, en það gera önnur sveitarfélög ekki.
  • Á sumum nýjum þróunarreitum í borginni er kostnaður við uppbyggingu innviða á höndum lóðarhafa og má þar nefna Kringlureitinn og Skeifuna 7-9.

Húsnæðisumbætur ríkisstjórnarinnar núllaðar út?

Það vekur ekki síður furðu að á sama tíma og borgarstjórn Reykjavíkur ræðir hækkun byggingarkostnaðar sunnan við Vonarstræti hefur ríkisstjórn, sem er að hluta samansett af sömu stjórnmálaflokkum og borgarstjórnarmeirihlutinn, boðað að norðan götunnar, á Alþingi, verði lagður fram stafli af málum sem eiga að stuðla að því að lækka íbúðaverð og hjálpa fólki að eignast eigin húsnæði.

Vonarstrætið er vissulega tvístefnugata - en eigum við að trúa því að fulltrúar Samfylkingarinnar og Viðreisnar í borgarstjórn ætli að greiða atkvæði með tillögum sem fara mögulega langt með að núlla út ávinninginn af þingmálum ríkisstjórnarinnar þegar kemur að húsnæðiskostnaði almennings í stærsta sveitarfélagi landsins?

Hér er ástæða fyrir borgarstjórn að staldra við og samþykkja ekki þessar miklu hækkanir á gatnagerðargjöldum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda




Skoðun

Sjá meira


×