Skoðun

Vér erum úr sömu sveit

Steinþór Logi Arnarsson skrifar

Sveitirnar okkar endurspegla þjóðarsál Íslendinga, þær umlykja og eru umluktar okkar mestu gersemi og stolti, íslenskri náttúru. Þó að flestir Íslendingar búi nú í þéttbýli, þá lifir tengingin við sveitina sterkt áfram – í matnum sem við borðum, landslaginu sem við dáumst að og gildunum sem við höldum í. En á tímum aukins hraða og breytinga í samfélaginu þarf að huga að og rækta tengsl bænda og neytenda.

Við þurfum að endurnýja heitin milli bænda og borgar. Það er mikilvægt að efla skilning og traust á milli þessara tveggja heima. Neytendur vilja vita hvaðan maturinn kemur; hvort sem það er í versluninni, veitingastaðnum eða mötuneytinu, hvernig hann er framleiddur og að landbúnaðurinn sé rekinn með ábyrgum hætti. Bændur vilja á sama tíma standa undir væntingum neytenda og heyra hverjar þær eru. Bændur vilja sömuleiðis að afurðir þeirra séu metnar að verðleikum og að það sé skilningur á þeirri þrotlausu vinnu og fagmennsku sem liggur að baki hverri fullunninni vöru.

Við bændur stöndum með neytendum og neytendur standa með okkur. Það traust og sú samstaða er lykillinn að því að halda uppi sterkum og sjálfbærum landbúnaði í þágu þjóðar. Íslenskir bændur leggja sig fram við að framleiða hágæða matvæli, nýta nýjustu tækni og þróa framleiðslu með umhverfið í huga. Það er engin tilviljun að íslenskar landbúnaðarafurðir njóta trausts – þær byggja á hreinni náttúru, vandaðri vinnu og alúð.

Neytendur kjósa íslenskt – það skiptir máli. Þegar við veljum íslenskt, styðjum við ekki aðeins nærsamfélagið heldur einnig áframhaldandi þróun og nýsköpun í landbúnaði. Við verjum matvæla- og fæðuöryggi okkar, styðjum við sjálfbæra framleiðslu og tryggjum að sveitirnar okkar haldi áfram að vera lifandi hluti af íslenskri menningu.

Við erum öll í sama liðinu – bændur og neytendur – öll úr sömu sveit. Þess vegna er full ástæða til bjartsýni. Saman munum við tryggja góða og bjarta framtíð fyrir íslenskan landbúnað, í þágu íslenskrar þjóðar.

Höfundur er formaður Samtaka ungra bænda.




Skoðun

Sjá meira


×