Holan gefur 116 gráðu heitt vatn og 45 sekúndulítra. Nú stendur til að fanga orku úr umframhita holunnar og framleiða rafmagn. Það er Flúðaorka og Varmaorka sem standa að verkefninu.
„Við erum að tala um framleiðslu á rafmagni úr jarðhita úr lághita sem er nýjung á Íslandi, háhitinn hefur verið mest nýttur eins og flestir vita. Nú er tækifærið til að framleiða rafmagn á hverjum stað hjá heimamönnum en það er held ég eitthvað sem ansi margir hafa verið að bíða eftir.
„Við erum að taka efsta hlutann, hita toppinn og framleiða rafmagn áður en þetta fer til húshitunar. Það er tækifæri sem ég held að fáir á Íslandi hafi áttað á sig á að yrði mögulegt. Nú er verið að gera þetta í fyrsta sinn úr lághitanum“, segir Ragnar Sær Ragnarsson, framkvæmdastjóri Varmaorku sem vinnur verkefnið í samvinnu við Flúðaorku og Hrunamannahrepp.

„Þessi tækni hefur ekki verið til. Við erum að vinna með Sænskum aðila sem að framleiða vélbúnað sem gerir þetta kleift og það er að byrja hér á Kópsvatni í Hrunamannahreppi“, segir Rangar enn fremur.
Mikil spenna og eftirvænting er hjá heimamönnum vegna verkefnisins enda nóg af heitu vatni í sveitarfélaginu.
„Við erum að selja vatnið til Flúðaorku og fáum þar náttúrulega tekjur. Svo er þetta vonandi fyrsta skrefið í það að við sjáum um meiri rafmagnsleiðslu í sveitarfélaginu, kannski bara fyrir allt sveitarfélagið. Þetta er mjög skemmtileg tækni og gaman að það skuli vera hægt að nýta hana hér“, segir Halldóra Hjörleifsdóttir, oddviti Hrunamannahrepps.
Vonast er til að rafmagnsframleiðslan komi til að hefjast í haust en það rafmagn verður þá í fyrstu selt inn á kerfið hjá RARIK.